Á nýliðnum aðalfundi Siglingaklúbbsins Þyts þann 2. Febrúar var ný stjórn kjörin en innan nýrrar stjórnar eru bæði reynsluboltar úr fyrri stjórn sem og nýliðar en öll sem tóku sæti í stjórn hafa þó verið virkir meðlimir í klúbbnum og koma úr ýmsum áttum innan starfseminnar.
Helga Veronica Foldar, fyrrum gjaldkeri klúbbsins síðustliðin þrjú ár var kjörinn formaður, nýr varaformaður er Haukur Vagnsson sem kemur nýr inn í stjórn, meðstjórnendur eru Þura Z Þórðar sem áður var varaformaður og hefur verið í stjórn síðustu 2 ár, Þóra Björk Elvarsdóttir sem tekur við stöðu gjaldkera og Rán Pétursdóttir sem mun áfram sinna starfi ritara en hún hefur gengt því hlutverki síðustu 3 ár. Varamenn eru svo Ólafur Ágúst Axelsson sem hefur setið í aðstöðunefnd og Birna Rut Björnsdóttir sem kemur inn í stjórn úr hópi foreldra barna sem æfa siglingar hjá Þyt.
Ný stjórn hefur heldur betur látið hendur standa fram úr ermum síðastliðnar 2 vikur og í brennidepli hefur verið að taka til í húsnæði Þyts. Nú þegar hefur skrifstofan fengið yfirhalningu og búið er að festa kaup á nýrri innréttingu fyrir kaffistofuna og vinna hafin við að koma henni upp. Næst á dagskrá í tiltektarmálum eru svo salurinn og seglageymsla. Á starfsári síðustu stjórnar var svo parketið á seglaloftinu pússað og er útkoman virkilega góð en einnig er von á nýjum stólum sem síðasta stjórn ákvað að festa kaup á svo að óhætt er að segja að seglaloftið sé óðum að taka á sig fallega mynd. Ásamt því að hafa tekið til hendinni í húsinu er undirbúningur fyrir komandi siglingaár á fullu en auk venjubundinna verkefna eins og t.a.m. undirbúningur fyrir mót sumarsins, siglinganámskeiðin, 6. Bekkja heimsóknir og opin hús á Þytur stórafmæli í ár þegar að klúbburinn verður 50 ára 19. Apríl næstkomandi svo í nógu er að snúast.
Ný stjórn þakkar traust félagsmanna og vill hvetja alla til að taka virkan þátt í því fjölbreytta starfi sem klúbburinn hefur upp á að bjóða.
